Íslenski boltinn

Guðmundur Steinarsson: Þetta kemur ekki aftur fyrir í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Steinarsson.
Guðmundur Steinarsson. Mynd/Daníel
Keflvíkingurinn Guðmundur Steinarsson var skiljanlega ósáttur með frammistöðu Keflavíkurliðsins í kvöld eftir 4-o tap á móti Stjörnunni.

„Við skitum bara í hey og töpuðum stórt. Sem betur fer eru þetta bara þrjú stig í súginn þrátt fyrir þetta stóra tap. Við verðum bara girða okkur í brók og fara aftur í grunninn. Við höfum viku til að fara yfir hvað klikkaði hérna í kvöld og við verðum að koma tvíelfdir til leiks," sagði Guðmundur.

„Þetta var óskiljanlegt frá A til Ö. Við erum komnir í þennan leik til að vinna en við náum okkur ekki af stað og því fór sem fór. Við vissum alveg hvert verkefnið væri í kvöld og að þeir væru sterkir á sínum heimavelli. Við ætluðum að koma hingað með ákveðið skipulag en það fór fyrir lítið á mjög stuttum tíma," sagði Guðmundur.

„Við erum ennþá á toppnum en við þurfum að taka næsta leik föstum tökum til þess að halda okkur þar. Við erum ennþá í bílstjórasætinu og stefnum á að vera í toppbaráttunni. Það er ekkert annað sem kemur til greina en sigur í næsta leik," sagði Guðmundur.

„Þetta var bara einn af þessum dögum. Þetta var slys og þetta kemur ekki aftur fyrir okkur á þessu sumri," sagði Guðmundur að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×