Fótbolti

Dunga: Þetta snýst bara um að ná árangri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dunga, landsliðsþjálfari Brasilíu, fagnar sigri með Kaka.
Dunga, landsliðsþjálfari Brasilíu, fagnar sigri með Kaka. Mynd/AP

Dunga, landsliðsþjálfari Brasilíu, var ánægður með 2-1 sigur liðsins á Norður-Kóreu í fyrsta leik sínum á HM í Suður-Afríku í kvöld.

„Þetta snýst bara um að ná árangri. Það þurfa allir að skila sínu verki, bæði varnarlega og sóknarlega. Án þess komumst við ekkert áleiðis," sagði Dunga eftir leikinn.

Dunga hefur byggt upp brasilíska liðið í sínum stíl þar sem vinnusemi og varnarleikur er meira í hávegum hafður en oftast áður hjá Brasilíumönnum.

Dunga kenndi leikstíl Norður-Kóreu um hversu illa brasilíska liðinu gekk að skapa sér færi í leiknum.

„Þegar þú mætir liði sem reynir að sækja á þig þá er hægt að opna svæði en þegar allt er lokað eins og í kvöld þá er mun erfiðara að athafna sig," sagði Dunga.

„Okkur gekk illa í upphafi og við vorum að senda boltann alltof mikið á milli hliðarlínanna. Ég er ánægður með sigurinn en ég vil fá meira. Ég vil að við skorum meira af mörkum," sagði Dunga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×