Innlent

Sendiráðsmenn vildu nöfn fréttamanna á vettvangi

Hópur fólks kom saman og mótmælti við bandaríska sendiráðið í dag. Mótmælendur og sendiráðsmenn hafa lengi deilt um hvort mótmæla megi á stéttinni við sendiráðið. Að beiðni sendiráðsmanna safnaði lögreglan nöfnum fréttamanna og ljósmyndara sem fylgdust með mótmælunum.

Lárus Páll Birgisson sjúkraliði stóð fyrir mótmælunum en hann hefur í nokkurn tíma átt í útistöðum við sendiráðsmenn sem vilja banna honum að mótmæla stríði á stéttinni fyrir utan sendiráðið. Þrisvar hefur hann verið handtekinn og einu sinni verið dæmdur fyrir þessa iðju. Hann mætti ásamt félögum sínum í dag og sendiráðsmenn kölluðu að venju á lögreglu. Þeir vildu að mótmælendur yrðu fjarlægðir af stéttinni en lögreglan varð ekki við þeirri ósk. Hún fylgdist hins vegar grannt með mótmælendum, og reyndar fréttamönnum og ljósmyndurum líka.

Lögreglukona á vettvangi tók niður nafn fréttamanns Stöðvar 2 og tveggja fréttaljósmyndara, og sagði að þetta væri gert að beiðni sendiráðsmanna.Þeir vildu hins vegar ekki veita fréttastofu viðtal og svöruðu engum spurningum.

Skipuleggjandi mótmælanna segir að þetta sé „prinsipp"-mál. Hann vill að rétturinn til tjáningar sé virtur, líka á stéttinni við sendiráðið.

„Þar til rétturinn verður viðurkenndur, að hér megi fólk vera, að þá held ég áfram að koma," segir Lárus Páll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×