Innlent

Tækifæri fyrir transfólk til að stíga fram

Erla Hlynsdóttir skrifar
Ugla Stefanía vonast til að transfólk sem hefur ekki stigið fram áður mæti á fundinn
Ugla Stefanía vonast til að transfólk sem hefur ekki stigið fram áður mæti á fundinn

Trans-ungmennakvöld verður haldið í regnbogasal Samtakanna 78 á laugardagskvöldið. Viðburðurinn er miðaður að ung transfólki, þeim sem telja sig hafa fæðst í líkama af röngu kyni.

Ugla Stefanía Jónsdóttir er nítján ára og fæddist í líkama karls. Hún er í svokölluðu kynleiðréttingarferli og bíður eftir því að fara í aðgerð til að leiðrétta kyn sitt. Ugla Stefanía er ein þeirra sem koma að skipulagningu Trans-ungmennakvöldsins.

Algjör trúnaður ríkir á fundinum og verða því myndatökur með öllu bannaðar. Hann er opinn ungu transfólki upp að þrítugu, og öllum þeim sem telja sig á einhvern hátt telja sig vera transgender, en það orð hefur hér á landi verið notað sem regnhlífarhugtak yfir þá sem fæðst hafa í líkama af röngu kyni.

Ugla segist vita til þess að minnst tíu til fimmtán manns ætli að mæta á fundinn. Hún vonast til að ungt transfólk sem hefur ekki áður stigið fram grípi tækifærið til að kynnast öðru fólki í svipuðum sporum. „Tilgangurinn með þessum fundi er líka að þarna geti komið fólk sem hefur ekki þorað að stíga fram áður," segir hún.

Markmiðið með fundinum er að ungt transfólk geti komið og kynnst hvert öðru, fengið ráðgjöf frá reyndum einstaklingum eða bara einfaldlega til þess að spjalla.

Kvöldið er skipulagt í samstarfi við félögin Trans-Ísland, Q-félag hinsegin stúdenta, Samtökin 78, Ungliðahreyfingu samtakanna 78 og Samtökin 78 á Norðurlandi.

Áætluð dagskrá hefst klukkan sjö á laugardagskvöldið og lýkur um klukkan ellefu. Öll félögin verða með fulltrúa á staðnum þar sem starfsemin er kynnt sem og hvernig félagið tengist transgender-málefnum á Íslandi.

Ugla Stefanía var í opinskáu viðtali í Íslandi í dag á Stöð 2 þar sem hún sagði sögu sína. Viðtalið má nálgast með því að smella hér




Fleiri fréttir

Sjá meira


×