Innlent

Vænir geithafrar saman í sæðistöku

Hér leggur geithafurinn Skuggi sitt af mörkum til viðhalds geitastofninum. Á myndinni eru Birna Baldursdóttir erfðafræðingur og Þorvaldur Jónsson hjá Búnaðarsamsamtökum Vesturlands. Fréttablaðið/Gva
Hér leggur geithafurinn Skuggi sitt af mörkum til viðhalds geitastofninum. Á myndinni eru Birna Baldursdóttir erfðafræðingur og Þorvaldur Jónsson hjá Búnaðarsamsamtökum Vesturlands. Fréttablaðið/Gva
Átta myndarlegir geithafrar eru nú á Hvanneyri, þar sem verið er að taka úr þeim sæði og frysta.„Tilgangurinn með því að safna sæði og frysta er að reyna að sporna við þeirri miklu skyldleikaræktun sem orðið hefur innan varnarhólfa og gefa geitfjáreigendum tækifæri á að fá erfðaefni úr öðrum landshlutum,“ segir Birna Kr. Baldursdóttir erfðafræðingur.

Birna lauk nýlega meistaraprófi í erfðafræði frá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri. Niður­stöður rannsóknar á íslenska geitastofninum sem gerð var við skólann í tengslum við meistaraprófið og byggð var á ættargögnum og DNA-greiningum sýndi svo ekki verður um villst að stofninn er mjög skyldleikaræktaður og erfðafjölbreytileiki með því allra lægsta sem finnst. Samkvæmt niðurstöðum þessarar rannsóknar er staða hans afar viðkvæm og íslenski geitastofninn í útrýmingarhættu.

Þau Birna og leiðbeinandi hennar, Jón Hallsteinn Hallsson, lektor í erfðafræði við landbúnaðarháskólann, fengu styrk frá Erfðanefnd landbúnaðarins til að hefja söfnun hafrasæðis. Auk þess hefur Þorsteinn Ólafsson, dýralæknir hjá Matvælastofnun, komið að verkefninu.

Sæðingar hafa ekki verið stundaðar í geitfé nema í mjög litlum mæli og er þetta í fyrsta skipti sem sæði er fryst. Geitfjárstofninn taldist lengi vel ekki til hefðbundinna framleiðslukynja, heldur voru geiturnar einkum haldnar sem gæludýr. Undanfarin ár hefur þetta breyst. Geitakjöt selst vel og framleiddir eru ostar úr geitamjólk, auk þess sem ull og skinn eru nýtt.

jss@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×