Þingmaður Samfylkingarinnar, Jónína Rós Guðmundsdóttir, hefur bæst í hóp þeirra tæplega 1500 manna sem vilja að forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, segi af sér embætti. Vísir sagði frá því fyrr í dag að hópur væri kominn á Facebook sem krefðist þess að forsetinn segði af sér eftir að hann synjaði Icesave-lögunum í morgun.
Þá voru 600 manns búnir að slást í hópinn en hann hefur þegar tvöfaldað sig. Jónína er ekki eini stjórnmálamaðurinn sem vill að forsetinn segi af sér, þar má einnig finna Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúa Vinstri grænna og ritara flokksins. Einnig má finna fjölmarga þjóðkunna Íslendinga.