Innlent

Danir furða sig á vinsældum Franks og Caspers á Íslandi

Klovn: The Movie verður frumsýnd í Danmörku í kvöld og það ríkir mikil eftirvænting meðal Baunverja hvernig þeim Frank og Casper reiðir af á hvíta tjaldinu. Dreifingaraðili myndarinnar telur Klovn vera nýjustu útflutningsvöru Danmerkur.

Klovn: The Movie verður, ef að líkum lætur, einn stærsti smellur í sögu danskrar kvikmyndagerðar. Frank Hvam og Casper Christiansen eru kóngar danskrar kómedíu um þessar mundir og fjölmiðlar fylgjast með hverju skrefi þeirra; það varð til að mynda mikið fjölmiðlafár þegar veggspjald myndarinnar birtist en þar sést greinilega í lim Caspers Christiansen þar sem hann liggur umkringdur nöktum konum og karlmannshendi.

Að sögn Rikke Ennis, sölustjóra hjá TrustNordisk sem dreifir og selur bæði myndina og þættina fyrir framleiðslufyrirtækið Zentropa, eru Klovn-þættirnir einstakir á Norðurlöndunum. Þetta sé til að mynda fyrsta norræna gamanserían sem sé sýnd samtímis í nágrannalöndunum Finnlandi, Svíþjóð, Noregi og samveldislöndunum Færeyjum og Grænlandi. Og svo sé það Ísland en Ennis lýsir Klovn-æðinu hér sem ótrúlegu fyrirbæri.

„Frank og Casper eru orðnir að hálfgerðum menningarfyrirbærum þar og Klovn-þættirnir eru sagðir vera vinsælli en Twilight," útskýrir Ennis í viðtali við danska blaðið B.T og bætir við að þetta sé algjört brjálæði. Fulltrúi Iceland Express hafi hringt í Casper sjálfan og beðið um leyfi til að sýna þættina í flugi milli Íslands og Ameríku.

Þeir Casper og Frank geta ekki kvartað yfir vinsældum sínum, Frank hefur þvælst um alla Danmörku með uppistandssýningu sína og sýnt fyrir fullu hús. Samkvæmt B.T. þénuðu þeir félagar yfir 120 milljónir saman á síðasta ári og lepja því varla dauðann úr skel á næstunni enda má fastlega gera ráð fyrir að kvikmyndin eigi eftir að skila þeim nokkrum krónum í vasann. Klovn: The Movie verður síðan frumsýnd hér á landi 1. janúar og þeir Casper og Frank eru væntanlegir til Íslands þótt ekki liggi fyrir hvort þeir mæti fyrir áramót eða strax á nýju ári.

freyrgigja@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×