Viðskipti innlent

FT: Ólíklegt að Bretar semji um betri kjör á Icesave skuldum

Viðskiptablaðið Financial Times segir að það sé lítill áhugi á því innan bresku stjórnarinnar að semja við Íslendinga um betri kjör á Icesave skuldinni. Kjörin séu þegar nægilega örlát í garð Íslendinga og gefi þjóðinni sjö ára frið til að endurbyggja efnahag sinn.

Þetta kemur fram í ítarlegri umfjöllun blaðsins um ákvörðun forseta Íslands að hafna Icesave frumvarpinu og setja málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar segir að ákvörðunin hafi steypti þjóðinni í nýtt efnahagslegt og pólitískt uppnám.

Financial Times segir að ákvörðun forsetans sé alvarlegt áfall fyrir Alistair Darling fjármálaráðherra Bretlands sem hafi eytt mánuðum í að komast að ásættanlegri niðurstöðu í málinu fyrir báða aðila.

Haft er eftir Wouter Bos fjármálaráðherra Hollands að hann hafi orðið fyrir miklum vonbrigðum með ákvörðun forsetans. Bos á von á skjótum viðbrögðum frá íslenskum stjórnvöldum um hvað þau hyggjast fyrir í stöðunni. „Hvað sem því líður lítur Holland svo á að Ísland sé skuldbundið til að borga þessar skuldir sínar," segir Bos.

Þá er fjallað um áhrifa ákvörðunarinnar á lánshæfismat Ísland sem flestir telja að verði lækkað á næstunni. Og þá staðreynd að þessi staða sem upp er komin nær útiloki aðild Íslands að Evrópusambandinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×