Viðskipti erlent

Icesave lánið olli hörðum deilum í breska stjórnarráðinu

Sú ákvörðun Alistair Darling fjármálaráðherra Bretlands að lána Íslendingum 3 milljarða punda í október 2008 vegna Icesave reikninganna olli hörðum deilum milli hans og æðsta embættismanni fjármálaráðuneytisins, ráðuneytisstjóranum Sir Nicholas Macpherson.

Fjallað er um málið í blaðinu Times en bréfaskrif milli Darling og Macpherson um lánið hafa verið gerð opinber eftir að bréfin komust í hendur Frjálslynda flokksins. Þar kemur einnig fram að Seðlabanki Englands (Bank of England) var á móti þessari lánveitingu.

Macpherson greinir frá miklum áhyggjum sínum af lánveitingunni og varaði við að Bretland ætti á hættu að fá lánið ekki endurgreitt. Darling hundsaði ráð Macpherson og Bank of England og fyrirskipaði að lánið skyldi veitt.

Í frétt Times segir að aðvaranir Macpherson virðast hafa verið réttmætar í ljósi þess sem síðar hefur gerst og er þar m.a. vísað til ákvörðunnar forseta Íslands um að vísa Icesave málinu til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Í bréfi sem Macpherson skrifar eftir fund með Darling þann 8. október 2008 kemur m.a. fram að lánið sé ekki hagstætt breskum skattgreiðendum og að Bank of England sé sammála honum um að tillaga Darling um lánveitinguna fari framyfir það sem þurfi til að viðhalda fjármálastöðugleika landsins. Einnig sé æskilegt að málið verði rætt við ríkisendurskoðun Bretlands.

Þá segir í bréfinu..."það er sá möguleiki til staðar að íslensk stjórnvöld muni ekki vilja eða geta endurgreitt þá fjármuni sem Bretar leggja fram."

Í svari Darling við þessu bréfi segir m.a. að Darling hafi komist að niðurstöðu sinni vegna þess alvarlega trúnaðarbrests sem komin er upp milli banka og viðskiptavina þeirra. Hvað varðar áhyggjur Macpherson af því að Íslendingar muni ekki endurgreiða lánið segir Darling að hann hafi skriflegan samning frá íslenskum stjórnvöldum um að þau muni styðja við bakið á innistæðutryggingarsjóði sínum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×