Fótbolti

Benítez fékk upplýsingar um Lille frá sínu gamla liði á Spáni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rafael Benítez, stjóri Liverpool.
Rafael Benítez, stjóri Liverpool. Mynd/AFP
Rafael Benítez, stjóri Liverpool, heimtar betri frammistöðu frá lærisveinum sínum í Liverpool, á móti Lille í Evrópudeildinni í kvöld, heldur en í tapinu á móti Wigan á mánudaginn.

„Lille er með gott lið. Fólk veit ekki mikið um þá en ég hef talað við mína gömlu félaga hjá Valencia og þeir segja að þetta sé öflugt lið og að þetta verði erfiður leikur fyrir okkur," segir Rafael Benítez.

Lille mætti Valencia í riðlakeppni Evrópudeildarinnar þar sem Valencia vann heimaleikinn 3-1 en liðin gerðu síðan 1-1 jafntefli í Frakklandi. Lille er eins og er í fimmta sæti frönsku úrvalsdeildarinnar fjórum stigum á eftir toppliði Bordeaux.

„Lille-liðið er gott á heimavelli og þeir munu koma tilbúnir í þennan leik. Þetta er mjög mikilvæg keppni fyrir félagið og það gerir þá enn hættulegri," segir Benítez.

„Við getum ekki spilað eins og við gerðum á móti Wigan því við verðum að fara út á völlinn til þess að skora mörk," sagði Benítez.

Leikur Lille og Liverpool verður í beinni útsendingu á Stöð Sport klukkan 18.00 í kvöld og strax á eftir verður sýndur leikur Fulham og Juventus.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×