Innlent

Forysta flokka hlynntari ESB en hún lætur uppi

Baldur Þórhallsson segir áhugavert hversu mjög Íslendingar fylgja ESB að máli á alþjóðavettvangi en ekki Bandaríkjunum, miðað við skjöl bandaríska sendiráðsins. Hann bendir á að Bandaríkjamenn virðist hlynntir nánara samstarfi Íslands og ESB.
Baldur Þórhallsson segir áhugavert hversu mjög Íslendingar fylgja ESB að máli á alþjóðavettvangi en ekki Bandaríkjunum, miðað við skjöl bandaríska sendiráðsins. Hann bendir á að Bandaríkjamenn virðist hlynntir nánara samstarfi Íslands og ESB.

Á hvað í íslensku Evrópu-umræðunni varpa skjöl Wikileaks helst ljósi? „Það er athyglisvert hversu vel bandaríska sendiráðið fylgist með íslensku Evrópu-umræðunni og er vel inni í henni og íslenskum stjórnmálum almennt. Ég efast um að nokkuð sendiráð í Reykjavík vinni vinnuna sína jafn vel," segir Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði og varaþingmaður Samfylkingar. Baldur hefur sérhæft sig í utanríkistengslum Íslands og sér í lagi tengslum við Evrópu. Hann var beðinn að meta hvort og þá hverju þau skjöl Wikileaks sem greint var frá í blaðinu á laugardag bæta við það sem áður var vitað um þessi mál.

„Mér finnst áhugavert hvað skjölin segja um afstöðu þáverandi varaformanns og núverandi formanns Sjálfstæðisflokksins til aðildar að Evrópusambandinu. Það vita allir um afstöðu Þorgerðar Katrínar. En það sem þau segja um Bjarna Benediktsson formann gengur þvert á það sem hann talar um Evrópumálin núna. Ég held raunar að sendiráðið fari mjög nærri lagi um hans raunverulegu afstöðu," segir Baldur. Í skjölum Wikileaks er Bjarni á einum stað sagður mikill stuðningsmaður aðildar Íslands að ESB.









Umfjöllun blaðsins á laugardag

„Það er um leið mjög athyglisvert sem sagt er um vilja innan VG og vilja innan þess flokks að taka upp evrópusinnaðri stefnu. Þarna koma sjónarmið Katrínar Jakobsdóttur, varaformanns VG, fram. Þannig að þetta segir okkur kannski það að forystusveit þessara flokka, VG og Sjálfstæðisflokks, sé evrópusinnaðri en menn vilja vera láta," segir Baldur og vísar til þess að Katrín er sögð á einum stað telja að VG breyti um stefnu og gerist Evrópusinnaðri. Hún hafi skilning á því.

Þá segist Baldur sammála því mati sendiráðsins að Framsóknarflokkurinn hafi náð að auka fylgi sitt í aðdraganda síðustu kosninga með jákvæðri stefnu gagnvart Evrópusambandsaðild.

„Þetta á sérstaklega við á höfuðborgarsvæðinu og er athyglisvert í ljósi þess hvernig Framsóknarflokkurinn hefur nálgast Evrópumálin eftir kosningar. Fyrir kosningar töluðu framsóknarmenn fyrir því að sækja um aðild að ESB og sjá hvað kæmi út úr samningi og bera undir þjóðina.

Þegar kom hins vegar að atkvæðagreiðslu á þingi um aðildarumsókn greiddi 2/3 þingmanna flokksins atkvæði gegn því að sækja um aðild og einungis þriðjungur með. Síðan hafa nokkrir þingmenn flokksins verið einna ákafastir í því að draga umsóknina til baka, sem gengur þvert á formlega stefnu flokksins eins og hún var mörkuð fyrir kosningar. Ég held að það hafi kannski gleymst að framsóknarmenn töluðu mjög hlýlega til ESB í aðdraganda kosninga," segir prófessorinn.

Baldur telur vangaveltur sendiráðsins verðugar, um hugsanlegan klofning innan flokkanna sem eru tvístígandi um Evrópu­samvinnuna: „Og hvernig það geta komið fram nýir flokkar ef það verður látið sverfa til stáls innan þessara flokka um Evrópumálin."

„Mér finnst líka athyglisvert að það kemur fram í samtölum sendiráðsmanna við íslenska embættismenn hve íslensk stjórnvöld taka afstöðu til alþjóðamála á grundvelli stefnu ríkja Evrópusambandsins. Það kemur skýrt fram í nokkrum dæmum að Íslendingar eru ekkert að eltast við Bandaríkin, heldur eru þeir að fylgja Evrópuríkjunum eftir og ESB," segir hann.







Baldur vísar hér til þess að greint var frá dæmum á laugardag þar sem íslenskir embættismenn segja beinlínis að Ísland fylgi yfirleitt fordæmi ESB, þegar alþjóðlegar yfirlýsingar eru gefnar út.

Prófessorinn segir að síðast en ekki síst virðist sendiráðsmönnunum Bandaríkjamanna finnast það vera mjög eðlilegt skref að Ísland tengist Evrópu nánari böndum bæði efnahagslega og pólitískt.

„Þeir hafa í raun ekkert við það að athuga nema síður sé. Þetta er í takt við stefnu Bandaríkjamanna gagnvart öðrum ríkjum Evrópu, í sögulegu samhengi, en bandarísk stjórnvöld hafa alltaf verið mjög fylgjandi þátttöku ríkja í Evrópusamrunanum," segir Baldur og vísar þar meðal annars til þeirra orða Carol van Voorst sendiherra að því ætti að koma því „á hreint að BNA telji ekki að sér vegið með íslensku ákalli um nánari öryggistengsl við Evrópu. Raunar myndum við taka því vel ef deila mætti byrðunum". Þetta sagði hún í mars 2006, í samhengi við brottför bandaríska hersins.

klemens@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×