Innlent

Íbúasamtök styðja Kitty von Sometime

Kitty von Sometime.
Kitty von Sometime.

Stjórn Íbúasamtaka miðborgar lýsir yfir ánægju með framtak listakonunnar Kitty von Sometime og veitingastaðarins Bakkusar að reyna að bæta dansmenningu miðborgarinnar með því að efna til dansleiks sem lýkur um miðnætti. Kitty sendi frá sér tilkynningu þar sem fólk er hvatt til þess að mæta á Bakkus þann 16.september næstkomandi en dansleikurinn hefst klukkan átta og lýkur klukkan eitt eftir miðnætti.

Þetta gerir Kittý í því augnamiði að reyna að bæta skemmtanamenninguna í borginni sem hún segir einkennast af því að fólk sitji lengi heima að sumbli og fari ekki á staðina fyrr en seint um nótt.

Íbúasamtökin taka undir með Kittý og segja: „Því miður standa nú nánast eingöngu til boða dansskemmtanir sem hefjast eftir miðnætti um helgar og standa fram undir morgun með háværri danstónlist sem raskar næturró íbúanna."

Stjórnin hvetur því aðra veitingamenn til fylgja þessu fordæmi og reyna að fá fólk til að koma fyrr á staðina en nú er. „Það getur varla þjónað hagsmunum veitingamanna að fá ekkert fólk í hús fyrr en langt er liðið á nótt og þá oftlega orðið verulega ölvað. Það hlýtur að hafa í för með sér aukinn kostnað við starfsmannahald og gæslu auk þess sem það er bæði ólöglegt og siðlaust að selja dauðadrukknu fólki áfengi."

„Stjórn Íbúasamtaka miðborgar skorar á veitingamenn, lögreglu og borgaryfirvöld að leggja íbúunum lið við að lyfta nætur- og skemmtanalífinu upp á örlítið hærra plan en nú er, með styttri opnunartíma og öflugara eftirliti og gæslu og þannig stuðla að betri borg allan sólarhringinn. Núverandi fylgifiskar næturlífsins, óþrif, ofbeldi og háreysti, eru hvorki íbúunum miðborgarinnar bjóðandi né heldur þeim sem þar starfa eða koma þangað í öðrum erindagjörðum en að drekka frá sér ráð og rænu," segir ennfremur.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×