Innlent

Feðgar flúðu land eftir ofsóknir

Þegar fréttastofa hafði samband við lögreglu fengust litlar sem engar upplýsingar um málið.
Þegar fréttastofa hafði samband við lögreglu fengust litlar sem engar upplýsingar um málið. Mynd/Pjetur
Tveir karlmenn eru í haldi lögreglu fyrir að hóta feðgum lífláti. Feðgarnir sem eru af kúberskum uppruna eru íslenskir ríkisborgarar og hafa búið Íslandi í meira en áratug. Þeir flúðu land í dag og fylgdi lögreglumaður þeim út á flugvöll. Greint var frá málinu í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins.

Þar kom fram að forsaga málsins er sú að sonurinn, sem er 18 ára, hefur átt vingott við íslenska stúlku og að samband þeirra hafi verið umdeilt vegna litarháttar hans. Hákon Sigurjónsson lögreglufulltrúi sagði að pilturinn og fjölskylda hans hefðu orðið fyrir aðkasti vegna þessa. Piltunum hafi verið hótað lífláti með smáskilaboðum og þá hafi skemmdar verið unnar á heimili fjölskyldunnar í Vesturbæ Reykjavíkur í gær og í nótt en þá voru rúður brotnar og útihurð eyðilögð.

Þá kom fram í frétt RÚV að karlmaður á miðjum aldri og piltur á aldri við soninn hafi verið handteknir í dag vegna málsins. Þeir eru hvorki taldir hafa tengsl við stúlkuna né feðgana.

Ekki fengust upplýsingar hjá lögreglu hvort mennirnir verði vistaðir í fangageymslum í nótt eða hvort þeir hafi áður komið við sögu lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×