Elektra var aðalbandið á stelpnakvöldi Oslopride á laugardaginn var. Svo virðist sem stelpurnar hafi eignast talsverðan aðdáendahóp í Noregi því þegar I don´t do boys var spilað söng salurinn hástöfum með.
„Við höfum verið að fá athygli erlendis frá sem hefur komið skemmtilega á óvart og við erum mjög spenntar að sjá hvað kemur út úr því," sagði Nana Alfreðsdóttir meðlimur Elektru spurð út í ferðalagið.

„Okkur finnst ekki leiðinlegt að spila í útlöndum svo þetta er bara draumur í dós. Noregsferðin var frábær í alla staði, við spiluðum í Rockefeller Music Hall sem var mögnuð upplifun,"
„Það komu tæplega 1500 manns á tónleikana, fólkið söng með, kunni textana og það var tryllt stemning. Við gætum ekki verið glaðari með undirtektirnar. Gaman að fá að prófa að vera rokkstjarna eina helgi í Osló. Við gætum alveg vanist þessu," sagði hún.

Hjúskaparlögin á Íslandi
„Við erum mjög ánægðar með þetta og stoltar af því hvað barátta samkynhneigðra er komin vel á veg hérna á Íslandi," sagði Nana þegar talið barst að hjúskaparlögunum hér á landi.
„Auðvitað eiga allir rétt á að giftast þeim sem þeir elska hvort sem það er maður eða kona. Annað er bara rugl."