Innlent

Lítið ber í milli í fráveitudeilu Hafnarfjarðar og Garðabæjar

Garðabær á í samningaviðræðum við Hafnfirðinga um afnot af fráveitukerfinu þeirra.
Garðabær á í samningaviðræðum við Hafnfirðinga um afnot af fráveitukerfinu þeirra.

„Garðabær væntir þess að málinu ljúki með sanngjarnri niðurstöðu fyrir báða aðila eins og bærinn leitast jafnan við í samningum við sína viðskiptavini," segir í tilkynningu frá bæjarstjórn Garðabæjar vegna deilunnar um fráveituna sem Garðbæingar nýta sér en Hafnfirðingar borga fyrir.

Vísir greindi frá því í gær að verslunarbyggð við rætur Hafnarfjarðar, eins og Ikea og fleiri fyrirtæki, nýta sér fráveitukerfi Hafnfirðinga þegar þeir fara á klósettið.

Ingimar Ingimarsson, nefndarmaður í framkvæmdarráði Hafnarfjarðar sagði í viðtali við Vísi í gær að bærinn hefði gengið lengi á eftir Garðbæingum í þessu máli, eða um fjögur ár. Hann bætti svo við að málið væri orðið dálítið pirrandi:

„Enda eru Garðbæingarnir að fara á klósettið á kostnað Hafnfirðinga," sagði Ingimar um þessa deilu á milli bæjarfélaganna.

Garðabær tekur hinsvegar fram í tilkynningu sinni að engin innheimtubréf hafa borist Garðabæ frá Hafnarfirði vegna notkunar á fráveitukerfinu enda unnið að lausn málsins í ágætri samvinnu eins og sagði í frétt Vísis í gær.

Bæjarráð Garðabæjar hefur falið bæjarstjóranum að ræða við bæjarstjóra Hafnarfjarðar um deilumálið.

Þá segir ennfremur í tilkynningunni að nokkrir fundir hafi verið haldnir um málið, „og ber nú lítið í milli."


Tengdar fréttir

Garðbæingar fara á klósettið á kostnað Hafnfirðinga

„Þetta er náttúrulega skítamál,“ segir Ingimar Ingimarsson, nefndarmaður í framkvæmdarráði Hafnarfjarðarbæjar, en bæjarfélagið hefur reynt að fá Garðabæ til þess að borga fyrir afnot af fráveitukerfi Hafnarfjarðar síðastliðin fimm ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×