Viðskipti erlent

Asda kaupir Netto í Bretlandi fyrir 146 milljarða

Dansk Supermarket hefur selt Netto verslanir sínar í Bretlandi til Asda Stores Ltd. Um er að ræða 193 verslanir og staðgreiddi Asda 6,8 milljarða danskra kr. eða um 146 milljarða kr. fyrir þær.

Í frétt á vefsíðunni epn.dk segir að reiknað sé með að hagnaður Dansk Supermarket af sölunni muni nema um 4,6 milljarða danskra kr. eða tæpir 100 milljarðar kr. Dansk Supermarket er að mestu eða 68% í eigu A.P. Möller Mærsk samsteypunnar. Netto var komið á fót í Bretlandi árið 1990.

Erling Jensen forstjóri Dansk Supermarket segir í tilkynningu um söluna að árið 2009 hafi verið gott ár fyrir Netto í Bretlandi en keðjan var valin lágvöruverslun ársins þar í landi. Erling segir að eftir söluna muni Dansk Supermarket leggja meiri áherslu á að styrkja stöðu sína á Norðurlöndunum og í norðanverðri Evrópu.

Andy Clark forstjóri Asda segir að hann bjóði viðskiptavini Netto velkomna til Asda. Hann reiknar með að starfsfólki Netto verði fjölgað verulega þar sem Netto verslanirnar muni hér eftir bæta við sig því vöruúrvali og þjónustu sem er í boði hjá Asda.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×