Innlent

Nýi vegurinn kostaði 2,7 milljarða króna

Frá Raufarhöfn. Leiðin milli Húsavíkur og Raufarhafnar styttist um 21 kílómetra.
Frá Raufarhöfn. Leiðin milli Húsavíkur og Raufarhafnar styttist um 21 kílómetra.

Þjóðvegurinn milli Húsavíkur og Þórshafnar styttist um 53 kílómetra á morgun, með formlegri opnun Hófaskarðsleiðar þvert yfir Melrakkasléttu. Núverandi vegur milli byggðanna norður um Sléttu er 212 kílómetra langur en með nýja veginum styttist leiðin niður í 159 kílómetra. Þá leysir vegurinn af Öxarfjarðarheiði, sem hefur aðeins verið fær á sumrin.

Það verður klukkan ellefu í fyrramálið sem samgönguráðherra ásamt vegamálastjóra klippir á borðann á Hófaskarði og ætla íbúar á norðausturhorni landsins að fagna tímamótunum með héraðshátíð um helgina, "Núna fer ég norður". Leiðin milli Húsavíkur og Raufarhafnar styttist um 21 kílómetra, leiðin milli Kópaskers og Þórshafnar styttist um 46 kílómetra og leiðin milli Kópaskers og Raufarhafnar styttist um 13 kílómetra.

Þetta eru í raun tveir vegir sem verið er að fagna; 39 kílómetra löng Hófaskarðsleið og nýr 14 kílómetra Raufarhafnarvegur, sem er afleggjari af Hófaskarðsleið. Heildarkostnaður, samkvæmt yfirliti Vegagerðarinnar, nam 2.680 milljónum króna, þar af kostaði Raufarhafnarvegur 460 milljónir króna. Verktaki á Hófaskarðsleið var Héraðsverk ehf, Egilsstöðum og á Raufarhafnarleið KNH ehf, Ísafirði.

Upphaflega stóð til að opna veginn á síðasta ári en vegna deilna við landeigendur tafðist verkið. Raunar lenti Vegagerðin í miklum ógöngum með ærnum aukakostnaði við að ljúka síðasta kaflanum næst Kópaskeri eftir að hún tapaði málaferlum fyrir Hæstarétti gegn bónda einum. Neyddist Vegagerðin á endanum til að láta sprengja veginn í gegnum mikinn klettaás, og hafa gárungar þegar nefnt vegstæðið þar Aulaskarð.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×