Skoðun

Helgi Helgason: Aukið íbúalýðræði

Frjálslyndir í Kópavogi hafa gengið frá framboðslista fyrir næstu bæjarstjórnarkosningar í Kópavogi. Fyrstu þrjú sætin eru þannig skipuð: 1. sæti skipar Helgi Helgason stjórnmálafræðingur, 2. sæti skipar Ásta Hafberg varaformaður Frjálslynda flokksins og 3. sæti Kolbrún Stefánsdóttir framkvæmdastjóri Sjálfsbjargar. Listinn var kynntur á fundi á sumardaginn fyrsta.

Ég lýsti því yfir á fundinum að ég myndi ekki taka sæti í stjórnum einkafyrirtækja eða fjármálastofnana verði ég kjörinn bæjarfulltrúi. Það var líka mjög ánægjulegt að efstu menn listans voru sammála um að setja það á oddinn sem baráttumál framboðsins að innleiða íbúalýðræði. Tillögur framboðsins eru mjög skýrar í því efni, ólíkt annarra framboða. Frjálslyndir vilja innleiða það í bæjarmálasamþykkt Kópavogs að 25% kjósenda geti krafist kosninga um umhverfis- og skipulagsmál. Með þessu móti hefðu íbúar á Nónhæð, í Lundi í Fossvogi eða á Kársnesinu getað varist þeirri valdníðslu sem núverandi meirihluti hefur viðhaft í skipulagsmálum á þessum svæðum.

Frjálslyndi flokkurinn mun beita sér fyrir því að umhverfis- og skipulagsmál í bænum verði endurskoðuð frá grunni með það að markmiði að íbúar hafi meira um sitt nánasta umhverfi að segja. Allar skipulagshugmyndir núverandi meirihluta á Kársnesinu vill flokkurinn henda og skipuleggja upp á nýtt með íbúum svæðisins þar sem þeirra rödd og hugmyndir ráða för.

Frjálslyndir munu hafa endaskipti á forgangsröðun þegar hagræðing er annarsvegar. Nýlega ákvað bæjarstóri að eldriborgarar fengju ekki lengur frítt í sund í Kópavogi. Meirihlutinn taldi sig spara 7 milljónir með þessu. Við segjum að þetta sé vitlaus forgangsröðun. Bæjarstjórinn í Kópavogi hefði getað skorið sín laun niður úr 1,7 milljón á mánuði í 1,2 milljónir á mánuði. Þar með hefðu eldriborgarar fengið áfram frítt í sund og góð heilsa eldriborgara, máttarstólpa þjóðfélagsins, er sparnaður fyrir ríki og bæjarfélög.

Helgi Helgason

1. sæti F-lista, Frjálslynda flokksins í Kópavogi.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×