Innlent

Gunnar Helgi: Kosningarnar verða sögulegar

Prófessor í stjórnmálafræði segir að gömu flokkarnir geti ekki látið eins og ekkert hafi í skorist fái Besti flokkurinn fylgi í samræmi við kannanir.

Gunnar Helgi Kristinsson prófessor í stjórnmálafræði segir að borgarstjórnarkosningarnar í dag verði sögulegar, hver sem úrslitin verða.

„Jafnvel þó Besti flokkurinn fái 30 prósent eða 25 prósent þá er þetta ekki líkt neinu sem við höfum séð eða nokkursstaðar annarsstaðar," segir Gunnar Helgi um þá athyglisverðu stöðu sem er komin upp í sveitarstjórnarmálum.

Funklistinn á Ísafirði og Biðlistinn fyrir austan náðu þó ágætum árangri á sínum tíma, en fylgið við Besta flokkinn sé af allt annari stærðargráðu.

„Þannig við erum að fara inn í bæði kosningnar sem eru sögulegar og kjörtímabilið sem fylgir á eftir munu mótast nýjar reglur í pólitík," segir Gunnar Helgi en að hluta til megi skrifa þessa stöðu á eftirköst efnahagshrunsins.

„Hrunflokkarnir eru ekki að ná sér á strik en við það hefur bæst að Samfylkingin og Vinstri grænir eru í ríkisstjórn og henni er refsað enda í erfiðum málum," segir Gunnar Helgi.

Ef niðurstaða kosninganna verði í samræmi við kannanir verði gömlu flokkarnir að endurskoða stöðu sína.

„Gömlu flokkarnir geta ekki haldið áfram óbreyttir. Svör fyrir kosningarnar hafa verið óskýr og það hefur Besti flokkurinn dregið fram og sýnt fram á að það er ekki lengur hægt og verður að vera með annað en skýra stefnu," segir Gunnar Helgi að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×