Skoðun

Niðurrifsstarfsemi eða nútíma lýðræði

Baldur Þórhallsson prófessor í stjórnmálafræði skrifar
Margir þingmenn leggja nú allt kapp á að draga umsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka. Þannig leggjast þeir gegn því að kjósendur fái að segja hug sinn í þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarsamning. Þeir leggjast einnig gegn því að látið verði á það reyna í viðræðum við ESB hvort að við Íslendingar fáum ásættanlegan samning í sjávarútvegs-, landbúnaðar- og uppbyggingarmálum og hvort að sambandið sé reiðubúið að aðstoða Seðlabankann við að styrkja stöðu krónunnar áður en tekin verður upp evra.

Þetta er ekki lýðræðislegur málflutningur og ekki til þess fallinn að efla trúverðugleika þingheims þar sem kjósendur hafa ákaft kallað eftir beinu lýðræði. Þessi forræðishyggja ber heldur ekki vott um að þingmenn treysti kjósendum.

Almenningur kallar eftir breyttum og lýðræðislegri vinnubröðum á þingi, hjá stjórnmálaflokkum og þingmönnum. Það að ganga gegn rétti kjósenda til að greiða atkvæði um aðildarsamning við ESB ber ekki vott um ný og bætt vinnubrögð heldur gamaldags niðurrifsstarfsemi, pólitískt karp og refskák.

Á þessum erfiðum tímum ættu stjórnmálamenn að vinna saman og standa vörð um hagsmuni þjóðarinnar í viðræðum við ESB. Kjósendur eiga skýlausan rétt á því að fá að sjá aðildarsamning við ESB, meta kosti hans og galla og greiða um hann atkvæði. Treystum þjóðinni.








Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×