Fótbolti

Blaðafulltrúi Tógó dó í örmum Emmanuel Adebayor

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Emmanuel Adebayor.
Emmanuel Adebayor. Mynd/AP

Emmanuel Adebayor segist þurfa að fá frí frá fótbolta eftir lífsreynsluna skelfilegu sem hann varð fyrir þegar rúta landsliðsmanna Tógó varð fyrir skotárás á föstudaginn. Þrír menn dóu í árásinni þar á meðal vinur Adebayor sem var bæði blaðafulltrúi hans og landsliðs Tógó.

„Þetta eru mjög erfiðir tímar. Blaðafulltrúi okkar sem er einnig blaðafulltrúi minn dó í höndunum á mér," sagði Adebayor og bætti við: „Þetta var versta upplifunin á minni ævi," sagði framherji Manchester City.

„Ég get ekki farið út á völl og farið að spila fótbolta. Það væri það versta sem ég gæti gert því ég er ekki hundrað prósent tilbúinn. Ég verð að byrja að æfa og sjá síðan til hvernig mér gengur að koma mér aftur af stað," segir Adebayor.

„Ég er veikburða og fæ svitaköst á hverjum degi. Ég hef enga matarlyst og er að léttast. Stjórinn minn og félagið skilur aðstöðu mína og þeir vita vel að ég þarf góðan tíma til þess að jafna mig á þessu áfalli," sagði Adebayor.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×