Fótbolti

Ballack-baninn Boateng í HM-liði Gana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kevin-Prince Boateng stendur hér yfir Michael Ballack eftir að hafa sparkað hann niður.
Kevin-Prince Boateng stendur hér yfir Michael Ballack eftir að hafa sparkað hann niður. Mynd/AFP
Kevin-Prince Boateng, leikmaður Portsmouth og maðurinn sem er ábyrgur fyrir því að Michael Ballack spilar ekki á HM í Suður-Afríku í sumar, komst í HM-hóp Gana sem var tilkynntur í dag.

Kevin-Prince Boateng tæklaði Michael Ballack illa í enska bikarúrslitaleiknum og þýski landsliðsfyrirliðinn meiddist það illa að hann verður ekki með Þýskalandi á HM. Gana er síðan einmitt í riðli með Þýskalandi en auk þess eru í riðlinum Serbía og Ástralía.

Kevin-Prince Boateng á reyndar enn eftir að spila landsleik fyrir Gana en hann lék á sínum tíma með 21 árs landsliði Þjóðverja. Boateng hefur hinsvegar fengið leyfi til að spila fyrir Gana og spilar væntanlega sinn fyrsta landsleik á morgun þegar Gana mætir Hollandi í undirbúningsleik fyrir HM.

John Mensah, miðvörðurinn hjá Sunderland, er einnig í HM-hópnum hjá Gana þrátt fyrir að hafa verið mikið meiddur á tímabilinu og tæpur fyrir fyrsta leik í keppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×