Innlent

Settu upp stóra kannabisverksmiðju

Svona rör eru notuð í vatnsræktun eins og mennirnir undirbjuggu.
Svona rör eru notuð í vatnsræktun eins og mennirnir undirbjuggu.

Hæstiréttur dæmdi í gær þrjá menn í fjögurra, fimm og sex mánaða fangelsi fyrir kannabisræktun og tilraun til stórfellds brots á lögum um fíkniefni. Hann staðfesti þar með dóm héraðsdóms.

Mennirnir þrír höfðu sett upp ræktunarstöð á bænum Karlsstöðum í Djúpavogshreppi þar sem hægt hefði verið að vatnsrækta allt að 600 kannabisplöntur. Þar fundust sextán plöntur.

Einn þremenninganna tók jörðina á leigu og hafði forgöngu um og fjármagnaði umfangsmiklar framkvæmdir við hina stóru kannabisverksmiðju. Hann kom síðar við sögu í umfangsmiklu svikamáli, þar sem um ræðir svik á virðisaukaskatti upp á 270 milljónir króna og sat um skeið í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar lögreglu, sem stendur enn yfir.

Í skýrslutöku vegna kannabis-málsins sagðist hann í fyrstu hafa ætlað að rækta tómata, en breytti því síðan í kannabisplöntur. Síðar kvaðst hann hafa verið hættur við kannabisræktunina vegna samviskubits. Loks sagðist hann fyrir dómi hafa ætlað að fara í ferðaþjónustu á jörðinni.

Mennirnir höfðu sett upp tvær öflugar dísilrafstöðvar á bænum til að leyna mikilli orkunotkun. - jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×