Innlent

Gísli Marteinn situr áfram

Gísli Marteinn Baldursson ætlar ekki að víkja sem borgarfulltrúi vegna ályktunar sem landsfundur Sjálfstæðisflokksins samþykkti um helgina. Hann segist engar lánafyrirgreiðslur hafa fengið, hvorki kúlulán né önnur óvenjuleg lán.

Í ályktuninni er skorað á þá sem hafa þegið háa styrki frá félögum eða notið fyrirgreiðslu sem ekki hafi staðið almenningi til boða, að víkja úr sínum embættum. Séra Halldór Gunnarsson bar tillöguna upp og beindi sérstaklega spjótunum að Gísla og Guðlaugi Þór Þórðarsyni, þingmanni og fyrrverandi ráðherra.

Í pistli um málið á heimasíðu sinni segir Gísli að prófkjörið í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna árið 2006 hafi verið stærsta prófkjöri sem haldið hafi verið hér á landi. Hann segir að á þeim tíma hafi forsvarsmenn í Sjálfstæðisflokknum verið ákaflega ánægðir með þá athygli sem flokkurinn fékk „...og hrósuðu mér bæði opinberlega og í einkasamtölum fyrir framgönguna." Það hafi auk þess þótt upptaktur fyrir kosningarnar að Sjálfstæðisflokkurinn fengi svo mikla athygli og auglýsingu. „Svei mér þá ef sjálfstæðismenn hældust ekki svolítið um af 'glæsilegu prófkjöri' og báru hróðugir saman við prófkjör hinna flokkanna."

Gísli segir að nú bregði svo að landsfundur flokksins telji að þetta prófkjöri hafi ekki verið gott. Engar áhyggjur séu viðraðar í ályktuninni um að prófkjörin hafi skaðað kjörna fulltrúa í störfum sínum. „Á meðan á prófkjörinu stóð árið 2005 tók ég skýrt fram, að sjálfur hefði ég enga burði til að fjármagna svo stórt framboð, heldur treysti ég algerlega á framlög fólks og fyrirtækja sem vildu styðja mig."

Þá segir Gísli að ályktun landsfundarins sé ekki alslæm. Hann ætli hér eftir sem hingað til að taka mark á þeim viðbrögðum sem hann hefur fengið.

„Sjálfur ætla ég að nýta öll viðbrögð við störfum mínum, jákvæð sem neikvæð, til að styrkja mig í mínu hjartans máli, sem er að gera Reykjavík að betri borg. Til þess hef ég nú verið kosinn í tvígang, og í tveimur prófkjörum hafa þúsundir Reykvíkinga raðað mér ofarlega á lista til að vinna að málum sem þeir treysta mér fyrir. Því trausti ætla ég ekki að bregðast," segir Gísli í pistlinum sem hægt er að lesa hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×