Fótbolti

Evrópudeildin: Liverpool vann og Jóhann Berg skoraði

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jóhann Berg skoraði fyrir AZ í kvöld.
Jóhann Berg skoraði fyrir AZ í kvöld. Nordic Photos / AFP

Fjölmargir leikir fóru fram í Evrópudeild UEFA í kvöld. Helst bar til tíðinda að ensku liðin Liverpool og Manchester City unnu sína leiki og að landsliðsmaðurinn Jóhann Berg Guðmundsson skoraði í 2-1 sigri AZ Alkmaar á Sheriff Tiraspol.

Jóhann Berg kom AZ yfir með marki á 14. mínútu leiksins en þeir rúmensku jöfnuðu metin á 68. mínútu.

Kew Jaliens skoraði svo sigurmark AZ í leiknum níu mínútum fyrir leikslok en Kolbeinn Sigþórsson var þá nýkominn inn á sem varamaður. Jóhann Berg lék allan leikinn fyrir AZ.

Getafe vann 2-1 sigur á danska liðinu OB í kvöld. Rúrik Gíslason spilaði allan leikinn fyrir OB.

Manchester City vann 2-0 sigur á Red Bull Salzburg í Austurríki. David Silva skoraði fyrra mark City strax á áttundu mínútu en Brasilíumaðurinn Jo það síðara á 62. mínútu.

Liverpool vann góðan sigur á Steaua Búkarest á Anfield í kvöld, 4-1. Joe Cole opnaði markareikninginn sinn fyrir Liverpool með marki eftir aðeins 27 sekúndur.

Cristian Tanese jafnaði hins vegar metin fyrir Steaua á þrettándu mínútu og þannig var staðan í hálfleik.

Liverpool skoraði svo þrívegis í síðari hálfleik. Fyrst David N'Gog úr víti á 55. mínútu, þá Lucas með glæsilegu skoti á 81. mínút en þá var hann nýkominn inn á sem varamaður. N'Gog innsiglaði svo sigurinn með sínu öðru marki í leiknum í lokin.

Juventus gerði 3-3 jafntefli við Lech á heimavelli sínum í kvöld. Síðarnefnda liðið komst 2-0 yfir en Giorgio Chiellini jafnaði metin með tveimur mörkum um miðbik leiksins. Alessandro Del Piero kom Juventus yfir á 68. mínútu en Artjoms Rudnevs tryggði Lech jafnteflið með marki í uppbótartíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×