Handbolti

Rakel Dögg: Vitum að við getum miklu betur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Ole Nielsen
Landsliðsfyrirliðinn Rakel Dögg Bragadóttir sagðist vera hundfúl eftir leikinn gegn Króatíu í kvöld sem Ísland tapaði, 35-25.

„Tíu marka tap er allt of mikið og sérstaklega í ljósi þess að við vorum tíu mörkum undir allan seinni hálfleikinn," sagði hún við Vísi eftir leikinn.

„Það er hundfúlt. Við getum gert miklu betur og við sýndum alls ekki okkar rétta andlit. Við vorum allt of passívar í vörninni og það gengur ekki að hleypa skyttunum þeirar svona nálægt okkur."

„Um leið og við stigum út í þær lentu þær í vandræðum. En við hleyptum þær allt of nálægt og þær fóru því illa með okkur," bætti hún við.

„Þar af leiðandi fengum við ekki hraðaupphlaupin með okkur. Við áttum ágætar sóknir inn á milli en það bara ekki nóg."

Hún segir að getumunurinn á milli liðanna sé ekki jafn mikill og tölurnar gefa til kynna.

„Mér finnst það ekki, þó svo að það hljómi asnalega eftir tíu marka tap. Króatía er með sterkt lið og við með lægra lið og óreyndara. En við vitum bara að við getum svo miklu betur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×