Fótbolti

Forseti Brasilíu um HM-liðið: Ekki frábærir einstaklingar en gott lið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luiz Inacio Lula da Silva, forseti Brasilíu og Dunga landsliðsþjálfari.
Luiz Inacio Lula da Silva, forseti Brasilíu og Dunga landsliðsþjálfari. Mynd/AFP
Luiz Inacio Lula da Silva, forseti Brasilíu, er mikill fótboltaáhugamaður og hann hefur nú biðlað til þjóðar sinnar um að standa saman að baki landsliðinu. Það hefur verið mikið deilt um HM-hóp liðsins á HM í Suður-Afríku enda eru voru stórstjörnur eins og Ronaldinho, Alexandre Pato og Adriano skildir eftir heima.

„Ég vil að við vinnum heimsmeistarabikarinn," sagði Luiz Inacio Lula da Silva. „Ég trúi því að Dunga hafi valið bestu leikmenn landsins á þessum tímapunkti. Þetta er lið sem er ekki með frábæra einstaklinga en þetta er gott lið af því að það hefur góða liðsheild og er staðráðið í að standa sig í keppninni," sagði Luiz Inacio Lula da Silva.

Luiz Inacio Lula da Silva ætlar að heimsækja fimm Afríkuþjóðir í júlí og það er á stefnuskránni að mæta á úrslitaleikinn sem fer fram 11. júlí. „Ef guð leyfir þá verður þar Brasilía að spila á móti einhverju öðru liði," sagði forsetinn vongóður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×