Fótbolti

Þjálfari Suður-Afríku brjálaður út í dómarann eftir leikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlos Alberto Parreira.
Carlos Alberto Parreira. Mynd/AP
Carlos Alberto Parreira var brjálaður út í svissneska dómarann Massimo Busacca eftir 3-0 tap Suður-Afríku á móti Úrúgvæ á Hm í Suður-Afríku í kvöld.

Massimo Busacca rak markvörðinn Itumeleng Khune útaf á 80. mínútu um leið og hann dæmdi á hann víti en Diego Forlan kom Úrúgvæ þá í 2-0 og gerði út um leikinn. Busacca spjaldaði líka tvo leikmenn Suður-Afríku.

„Leikmennirnir mínir eru mjög pirraðir og mjög svekktir. Það sáu það allir að þetta var versta frammistaða dómara til þessa í keppninni," sagði Carlos Alberto Parreira.

„Hann var að gefa gul spjöld sem áttu ekki að vera gul spjöld. Hann á ekki skilið að vera hérna," sagði Parreira og bætti við: „Busacca er versti dómarinn í keppninni til þessa og ég þarf vonandi ekki að horfa upp á hann aftur í keppninni," sagði Parreira að lokum.

„Úrslitin gefa ekki rétta mynd af leiknum. Úrúgvæ er samt með gott lið og góða leikmenn eins og Forlan. Reynslan þeirra skilaði sér á mikilvægum tímapunktum í leiknum," sagði Parreira sem er ekki búinn að afskrifa það að komast áfram.

„Þetta er ekki búið. Við þurfum að vinna Frakka og við verðum sókndjarfari í þeim leik. Þetta mun allt ráðast í þessum síðasta leik," sagði Brasilíumaðurinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×