Handbolti

Logi fer í pásu eftir Haukaleikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Logi á ferðinni í kvöld. Mynd/Daníel
Logi á ferðinni í kvöld. Mynd/Daníel

Logi Geirsson ætlar að taka sér hvíld frá handbolta eftir leik FH og Hauka á þriðjudaginn. Logi hefur verið að drepast í öxlinni upp á síðkastið, hefur ekkert getað æft og ekkert getað skotið í leikjunum.

"Ég ætla að taka Haukaleikinn og svo er ég farinn í meðferð. Ég er bara kominn í pásu. Ég er farinn að sjá landsliðið og HM í hyllingum. Ég er búinn að vera með mikla verki í öxlinni og ég get ekkert æft. Ég mæti í leiki og það hefur áhrif á liðið og búið að gera það í síðustu leikjum," segir Logi.

"Það tekur svolítið á mig hvernig gengið er búið að vera því ég er ekki búinn að ná mér á strik. Ég er búinn að tala við stjórnina hjá FH og þjálfarateymið og ætla taka pásu eftir leikinn á móti Haukum. Ég fer í framhaldinu í sprautumeðferð," segir Logi.

"Ég get ekki gert sjálfum mér það að vera alltaf að drepast í öxlinni. Ég vildi vera tíu marka maður í leik og drífa þetta áfram og það var ætlast til þess af mér. Ég er ekki að gera neinum greiða með því að geta ekki skotið á markið. Ég kalla mig keilarann í liðinu núna," sagði Logi í léttum tón.

"Það er óákveðið hvað ég verð lengi frá. Ég fer bara í sprautumeðferð og svo er ég er bara að vona að þetta lagist. Ég vakna alla morgna með verki í öxlinni og það er farið að verða svolítið dýrt. Ég ætla að einbeita mér að því að ná mér góðum. Þetta er langt tímabil en HM er komið í mjög mikla móðu hjá mér núna," segir Logi.

"Það eru viss vonbrigði en ég hætti ekki fyrr en að við klárum Haukana. Við tókum þá á Ásvöllum og það verður gaman að spila við þá í Kaplakrika," sagði Logi að lokum






Fleiri fréttir

Sjá meira


×