Innlent

Ætla að ráða fleiri forritara

Hjónin Leifur Björn Björnsson, leikjahönnuður Locatify, og kona hans Steinunn vinna að því að þróa ratleik fyrir iPhone-farsíma.
Hjónin Leifur Björn Björnsson, leikjahönnuður Locatify, og kona hans Steinunn vinna að því að þróa ratleik fyrir iPhone-farsíma.
„Þetta er stórkostlegt og gefur okkur færi á að ráða einn forritara og halda áfram með það sem við gerum,“ segir Steinunn Anna Gunnlaugsdóttir, framleiðandi hjá tölvuleikjafyrirtækinu Locatify.

Fyrirtækið hlaut í síðustu viku styrk Nordic Game Program upp á hálfa milljón danskra króna, jafnvirði tæpra 10,5 milljóna íslenskra króna, til framleiðslu á tölvuleiknum Fjársjóðsleit. Leikurinn er eingöngu fyrir iPhone-farsíma frá Apple. Styrkinn fær Locatify til að þróa leikinn áfram og koma honum á markað.

Leikurinn er hugsaður sem netleikur fyrir hópa sem keppa í fjársjóðsleit. Hann byggir á leiðsagnarforritinu Locatify Iceland sem kom út í sumar. Í því forriti er hægt að nota GPS-staðsetningartækni iPhone-símans til að kalla fram upplýsingar um ýmsa staðhætti. Leikurinn er framhald af því og gefur þeim sem spila hann möguleika á að nýta ratleikinn bæði til skemmtunar og fræðslu, að sögn Steinunnar.

Nordic Game Program er verkefni sem menningarmálaráðherrar Norðurlandaríkjanna fimm ýttu úr vör fyrir fimm árum og hvetja á til framleiðslu og dreifingar á norrænum tölvuleikjum fyrir börn og unglinga. Veittir eru styrkir tvisvar á ári. 252 umsóknir bárust Nordic Game Program í ár og fengu þrettán fyrirtæki styrk.- jab



Fleiri fréttir

Sjá meira


×