Enski boltinn

Liverpool ekki í vandræðum með Aston Villa

Elvar Geir Magnússon skrifar

Liverpool er komið upp í áttunda sæti úrvalsdeildarinnar en liðið vann Aston Villa örugglega 3-0 á Anfield í kvöld. Aston Villa er í sextánda sætinu, aðeins tveimur stigum fyrir ofan fallsæti.

Jamie Carragher, Steven Gerrard og Fernando Torres voru allir fjarri góðu gamni í kvöld en það kom ekki að sök.

Eftir fjórtán mínútna leik braut David Ngog ísinn í kjölfarið á hornspyrnu en varnarleikur Aston Villa var hreint út sagt hroðalegur.

Gestirnir voru ekki búnir að jafna sig á þessu þegar Ryan Babel bætti við öðru marki aðeins tveimur mínútum síðar. Þar sem Torres var á fæðingardeildinni og gat ekki tekið þátt í leiknum fékk Babel óvænt tækifæri í byrjunarliðinu og það ákvað sá hollenski að nýta sér.

Maxi Rodríguez innsiglaði svo öruggan sigur Liverpool á 54. mínútu eftir laglega sókn og lokatölurnar 3-0. Þess má til gamans geta að Joe Cole lék síðustu tíu mínúturnar fyrir Liverpool.

Það er væntanlega erfitt fyrir Gerard Houllier, stjóra Aston Villa, að kyngja þessum úrslitum en hann var að mæta með sitt lið á Anfield í fyrsta sinn síðan hann lét af störfum sem stjóri Liverpool á sínum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×