Íslenski boltinn

Hurst áfram hjá ÍBV - Góð áminning fyrir unga stráka á Íslandi

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Heimir er ánægður að halda Hurst aðeins lengur.
Heimir er ánægður að halda Hurst aðeins lengur. Fréttablaðið/Daníel
ÍBV hefur framlengt samninginn við bakvörðinn magnaða James Hurst. Hann er leikmaður Portsmouth en er í láni í Eyjum þar sem hann hefur slegið í gegn.

"Hann gerir bara mánaðar samning í einu og mánuðurinn var að renna út. Við framlengdum því samninginn en Portsmouth getur kallað í hann hvenær sem er," sagði Heimir Hallgrímsson, þjálfari ÍBV við Vísi.

"Það er mjög ánægjulegt, þessi strákur ætlar sér í aðalliðið úti. Það er aðeins meira mál að komast í liðið þar en í ÍBV," sagði Heimir.

Hurst er aðeins 18 ára gamall en hefur sýnt virkilega góða takta í sumar. "Þessi strákur er með frábæra grunntækni í öllu," segir Heimir og heldur áfram.

"Þetta er bara góð áminning fyrir strákana okkar hérna heima. Þetta sýnir okkur hvað er mikill munur á strákum þarna úti og okkar strákum."

"Guttar hérna eru stundum með einn eða tvo leiki á bakinu en samt komnir með umboðsmann og ætla bara út í atvinnumennskuna. Hann er að spila með varaliði Portsmouth og kemst ekkert í aðalliði."

"Sömu sögu er að segja af strákunum frá Crewe sem voru með okkur í fyrra. Þeir komust ekki í liðið þar í 3. deildinni en voru meðal bestu leikmanna landsins," sagði Heimir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×