Viðskipti innlent

Sjóvá ekki selt í bráð

Eigendur Sjóvár voru ekki ánægðir með söluverð fyrirtækisins. Skilanefnd Glitnis taldi það of lágt. Viðmælendur Fréttablaðisins telja að hætt verði alfarið við söluna í bili.
Eigendur Sjóvár voru ekki ánægðir með söluverð fyrirtækisins. Skilanefnd Glitnis taldi það of lágt. Viðmælendur Fréttablaðisins telja að hætt verði alfarið við söluna í bili.
Heiðar Már Guðjónsson og fjárfestar sem honum tengjast, einstaklingar og sjóðir, hafa hætt við kaup á 33 prósenta hlut í tryggingafélaginu Sjóvá. Með kaupunum hefði hópurinn getað fengið forkaupsrétt á helmingi félagsins.

Fyrirtækjasvið Íslandsbanka hefur séð um söluna á Sjóvá í tæpt ár, eða síðan í janúar á þessu ári. Samið var við fjárfestahópinn um mitt ár um verð og afhendingu hlutabréfa. Eignasafn Íslandsbanka hefur farið með 73 prósenta hlut í trygginga­félaginu síðan fyrirtækinu var bjargað frá gjaldþroti í apríl í fyrra þegar ríkið og fleiri lögðu 11,6 milljarða inn í Sjóvá. Skilanefnd Glitnis, sem á sautján prósent í félaginu, studdi söluferlið í byrjun árs en taldi verðið of lágt miðað við núverandi vaxtastig. Fulltrúar Glitnis höfðu ekki setið við samningaborðið frá í ágúst.

Morgunblaðið sagði í gær ástæðuna fyrir því að fjárfestahópurinn hætti við kaupin þá að Már Guðmundsson seðlabankastjóri hefði dregið að innsigla kaupsamninginn með undirskrift. Heiðar útilokaði í október ekki að skrif DV um hann skýrðu tafirnar. Blaðið fjallaði ítarlega um aðkomu hans að íslensku efnahagslífi á árunum fyrir hrun og sagði hann hafa fjárfest gegn krónunni ásamt bandarískum vogunarsjóðum og átt hlut í falli hennar.

Heiðar Már vildi ekki tjá sig um söluferli Sjóvár þegar Fréttablaðið leitaði eftir viðbrögðum hans í gær. Í tilkynningu frá fjárfestahópnum segir að Seðlabankanum hafi verið veittur frestur til 22. október síðastliðins til að staðfesta tilboðið, ellegar teldi hópurinn söluferlinu lokið. Ekki var skrifað undir samninginn innan tímamarka og því var hætt við kaupin.

Í tilkynningu sem Seðlabankinn sendi frá sér í gærkvöldi segir að bankinn hafi ekki getað tekið afstöðu til sölunnar fyrir þann tíma sem kaupendur settu. Lögmaður kaupendahópsins og einn meðlima hans hafi verið upplýstir um þessa niðurstöðu og ástæðu hennar á fundi í Seðlabankanum. Seðlabankinn getur að öðru leyti ekki tjáð sig opinberlega um ástæðu þess að ekki var hægt að veita svar fyrir áðurnefndan tímafrest.

Aðrir viðmælendur gátu lítið sagt. Einn hluthafa taldi líklegt að hætt yrði við söluna í bili.

Fjármálaeftirlitið, FME, vann enn að umsókn um hæfi fjárfestahópsins þegar eftirlitinu barst ósk um það á föstudag í síðustu viku að fresta afgreiðslu umsóknarinnar. FME vekur athygli á því að samkvæmt lögum um vátryggingastarfsemi þurfi virkir eigendur tryggingafélaga að uppfylla ýmis skilyrði. Þar á meðal að þeir ráði yfir fjárhagslegum styrk og að orðspor þeirra sé ekki með þeim hætti að það rýri traust félagsins. Ekki fengust svör frá FME um það í gær hvort fjárfestahópurinn hefði uppfyllt skilyrðin eður ei, en aðeins að hætt hefði verið við könnun á hæfi þeirra.jonab@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×