Handbolti

Danski landsliðsþjálfarinn spáir Íslandi ekki áfram

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Árósum skrifar
Jan Pytlick, þjálfari danska landsliðsins.
Jan Pytlick, þjálfari danska landsliðsins. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Jan Pytlick, þjálfari danska landsliðsins, hefur ekki mikla trú á íslenska liðinu á EM í Danmörku og Noregi sem hefst í dag.

Pytlick var fenginn til að spá í riðlana á Sporten.dk og býst ekki við því að Ísland komist áfram í milliriðlakeppnina.

Hann á von á miklu af liði Svartfjallalands og þá sérstaklega hinni öflugu Bojönu Popovic sem er tilnefnd sem leikmaður ársins hjá Alþjóða handknattleikssambandinu. Hann gerist svo djarfur að spá Svartfellingum áfram í undanúrslit á kostnað Rússa sem eru núverandi heimsmeistarar.

Pytlick bindur greinilega miklar vonir við sitt lið því hann hefur einnig spáð því að Danir komist áfram í undanúrslitin.

Hér má sjá hvaða liðum hann spáir áfram úr riðlakeppninni:

A-riðill:

Danmörk, Spánn og Rúmenía. Serbía situr eftir.

B-riðill:

Svartfjallaland, Króatía og Rússland. Ísland situr eftir.

C-riðill:

Þýskaland, Svíþjóð og Úkraína. Holland situr eftir.

D-riðill:

Noregur, Ungverjaland og Frakkland. Slóvenía situr eftir.

Sem fyrr segir spáir hann því að Danir og Svartfellingar komist áfram úr fyrri milliriðlinum og að Noregur og Þýskaland komist áfram úr þeim síðari.

Hann segir svo að Norðmenn séu líklegastir til að vinna gullið enda hafa þeir unnið þrjú síðustu Evrópumót. Allt geti þó gersti um úrslitahelgina sem fer fram í Herning.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×