Innlent

Vörðu mannvirki fyrir eðjuflóði

Svaðbælisá Áin ruddist kolgrá fram í fyrradag þegar eðjuhlaup kom í hana.
Svaðbælisá Áin ruddist kolgrá fram í fyrradag þegar eðjuhlaup kom í hana.

Stórvirkar vinnuvélar voru notaðar í gær til að verja mannvirki fyrir flóðinu í Svaðbælisá undir Eyjafjöllum. Fyrir hádegi tók að rigna og óx í ánni að sama skapi, að sögn Ólafs Eggertssonar bónda á Þorvaldseyri.

„Það er mjög mikið í ánni og stöðugt rennsli,“ sagði hann síðdegis í gær. „En þetta er ekki eins þykkur korgur og í gær. Menn börðust í gær við að halda ánni í farveginum svo að hún flæddi ekki yfir þjóðveginn eða kæmist að húsinu á Lambafelli, en hún rennur nærri því.

„Efnið sem runnið hefur niður af jöklinum fyllir farveginn og þá hækkar í ánni,“ útskýrði Ólafur. Flóðið væri vatnskenndara en áður og rynni greiðar fram. Síðdegis í gær hafði heldur dregið úr rigningunni á svæðinu.

Spurður um sýnina til jökulsins sagði Ólafur að ekkert glitti í hann vegna þoku sem næði niður í miðjar hlíðar. Ekkert heyrðist heldur til hans.

„En svart er að líta til fjalla, alveg kolbikasvart,“ bætti Ólafur við og sagði svifrykið hafa kvalið fólkið á svæðinu mest, því þegar það væri í loftinu væri ekki viðlit að vera úti við, hvorki fyrir menn né skepnur.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×