Enski boltinn

Hodgson mun aldrei selja Pepe Reina til Manchester United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pepe Reina.
Pepe Reina. Mynd/AFP
Roy Hodgson, stjóri Liverpool, hefur eins og aðrir heyrt sögusagnirnar að Manchester United ætli að reyna að kaupa markvörðinn Pepe Reina frá Liverpool en stjórinn segir að það komi ekki til greina að selja spænska markvörðinn til erkifjendanna í Manchester.

Pepe Reina hefur bæði verið orðaður við Manchester United og Arsenal í breskum fjölmiðlum í þessari viku en spænski landsliðsmarkvörðuinn er 28 ára gamall og skrifaði undir nýjan sex ára samning við Liverpool í apríl síðastliðnum.

„Þetta er ein af þessum sögum sem eru alltaf í gangi og er mjög pirrandi að heyra. Pepe er frábær hér og einn af lykilmönnum okkar liðs," sagði Roy Hodgson, stjóri Liverpool, við Guardian.

„Við höfum ekki heyrt neitt frá Manchester United og við viljum heldur ekkert heyra frá þeim," sagði Hodgson og bætti við:

„Ef [Sir Alex] Ferguson er að leita að markverði eftir tímabilið og hefur mikið af pening milli handanna til að finna eftirmann [Edwin] van der Sar þá getur vel verið að hann ætli sér að ná í Pepe því hann er sá besti í deildinni," sagði Hodgson.

„Málið er bara að við viljum ekki selja hann því hann er lykilmaður í því að félagið nái árangri á nýjan leik," sagði Roy Hodgson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×