Enski boltinn

Kvartar undan Man. City við Evrópu­sam­bandið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Norski framherjinn Erling Haaland og félagar hans hjá Manchester City horfa nú upp á enn eitt skiptið þar sem fjármál félagsins eru komin inn á borð löggjafarvaldsins.
Norski framherjinn Erling Haaland og félagar hans hjá Manchester City horfa nú upp á enn eitt skiptið þar sem fjármál félagsins eru komin inn á borð löggjafarvaldsins. AFP/Oli SCARFF

Forseti spænsku deildarinnar hefur klagað Manchester City til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

Ástæðan fyrir því eru brot félagsins á reglum sem varða fyrirtæki í eigu ríkja. Það lítur út fyrir að lögfræðingar Manchester City fái því enn fleiri verkefni á næstunni.

Javier Tebas, forseti La Liga, hefur lengi verið harður gagnrýnandi Manchester City. Hann var á ráðstefnunni „FT Business of Football Summit“ þegar hann sagðist hafa sent inn kvörtun vegna City árið 2023.

Hann telur að málið sé enn á rannsóknarstigi hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Svona mál eiga það til að taka mjög langan tíma.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins telst fara með framkvæmdavald innan Evrópusambandsins. Hún sér til þess að sjá til þess að löggjöf sambandsins sé framfylgt.

Tebas heldur því fram að City hafi það fyrirkomulag hjá sér að reyna að fara í kringum lögin og þar komi við sögu fyrirtæki í Sameinuðu arabísku furstadæmunum sem eru ekki í eigu City Football Group.

La Liga er á því að með þessu hafi Manchester City búið sér til ósanngjarnt og óleyfilegt forskot á önnur félög, bæði í ensku úrvalsdeildinni sem og í Meistaradeildinni.

„City er með fullt af fyrirtækjum í sínum hóp sem eru fyrir utan City Football Group. Þetta eru fyrirtæki sem síðan taka á sig alls konar kostnað við rekstur félagsins,“ sagði Tebas.

„Hin félögin tapa peningum en ekki félagið sjálft. Við höfum tilkynnt Evrópusambandinu um þetta og við erum með allar upplýsingar og allar tölur. Við báðum um að starfsemi City verði skoðuð. Það er mikilvægt að það sé gagnsæi hjá öllum félögum,“ sagði Tebas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×