Skoðun

Sönn lýðræðisást

Nú hafa nokkrir þingmenn innblásnir af lýðræðisást lagt fram þingsályktunartillögu að samhliða kjöri til stjórnlagaþings skuli einnig greitt atkvæði um hvort haldið skuli áfram viðræðum við Evrópusambandið. Þetta er auðvitað stórsnjöll tillaga enda slær hún tvær flugur í einu höggi.

Í fyrsta lagi kemur þetta í veg fyrir að við fáum að vita hvað hægt er að fá út úr viðræðum við þetta ferlega fyrirbæri sem ESB er og í seinna lagi þá sparar þetta þingmönnunum það ómak að leggja fram aftur tillögu sína að draga eigi umsóknina til baka. Af einhverjum ástæðum voru þeir hálfhræddir að hún myndi ekki vera samþykkt á Alþingi.

Í anda þessarar lýðræðisástar eiga þessir þingmenn auðvitað að víkka út þessa þjóðaratkvæðishugmynd og taka fleiri kosningar inn í pakkann. Til dæmis væri þjóðráð að kjósa hvort viðhalda eigi núverandi kvótakerfi í sjávarútvegi. Einnig mætti kjósa um hvort hækka eigi skatta eða lækka þá.

Svo mætti taka inn þjóðlendumálin og kjósa um þau um allt land. Í einstökum kjördæmum mætti til dæmis kjósa um opnun áfengisverslunar eða hvort sameina eigi fleiri sveitarfélög. Kópavogsbúar og Reykvíkingar gætu hæglega kosið um hugmynd borgarstjórans að sameina þessi tvo sveitarfélög.

Álftnesingar gætu tekið afstöðu til sameiningar við Hafnarfjörð, Garðabæ eða Reykjavík. Þetta er nefnilega gullið tækifæri til að láta hið fullkomna lýðræði verða að veruleika. Þessari áskorun er hér með komið á framfæri við þessa sjö mjög svo verðugu fulltrúa okkar á Alþingi. Allt í nafni þess að þjóðin fái nú örugglega ekki að kynna sér hugsanlegan samning við Evrópusambandið og að kjósa um slíkan samning.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×