Innlent

Aukið eftirlit verður með gjafasendingum

Refsingin við því að taka við vöru sem er ólöglega flutt til landsins getur verið sekt eða allt að tveggja ára fangelsi. Fréttablaðið/Arnþór
Refsingin við því að taka við vöru sem er ólöglega flutt til landsins getur verið sekt eða allt að tveggja ára fangelsi. Fréttablaðið/Arnþór
Starfsmenn tollstjóra munu hafa aukið eftirlit með póstsendingum til landsins sem sagðar eru innihalda gjafir, og tilkynna erlendum tollayfirvöldum vakni grunur um að Íslendingar erlendis sendi vörur til landsins og merki ranglega sem gjafir.

Fram kemur á vef tollstjóra að eitthvað sé um að Íslendingar sem búsettir séu erlendis auglýsi á netsíðum að þeir taki að sér að kaupa vörur fyrir fólk og senda varninginn hingað til lands sem gjafir.

Samkvæmt reglugerð eru tækifærisgjafir sem sendar eru af sérstöku tilefni, til dæmis vegna jóla, afmælis eða fermingar, undanþegnar aðflutningsgjöldum. Aðflutningsgjöld eru virðisaukaskattur, tollur og eftir atvikum vörugjöld. Undanþágan á þó aðeins við sé verðmæti sendingarinnar ekki meira en tíu þúsund krónur.

Tollstjóri telur augljóst að tilgangurinn með þeirri þjónustu sem auglýst hefur verið sé að reyna að komast hjá greiðslu, en það stangast á við ákvæði tollalaga um ólöglegan innflutning. Slík brot geta varðað sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. - bj



Fleiri fréttir

Sjá meira


×