Innlent

Fargjöld hækkuð á unga eldri borgara

Aldursviðmið Strætó vegna afsláttar til eldri borgara verða hækkuð upp í 70 ár vegna niðurskurðar velferðarráðs Reykjavíkur. Öll fargjöld munu hækka.  Fréttablaðið/Vilhelm
Aldursviðmið Strætó vegna afsláttar til eldri borgara verða hækkuð upp í 70 ár vegna niðurskurðar velferðarráðs Reykjavíkur. Öll fargjöld munu hækka. Fréttablaðið/Vilhelm

Strætisvagnafarþegar á aldrinum 67 til 69 ára munu ekki njóta afsláttar eldri borgara í nýrri gjaldskrá Strætó bs. sem kynnt var í gær og tekur gildi um áramót. Afsláttur eldri borgara er nú miðaður við 70 ár í stað 67 áður, en það hefur í för með sér að verð á stökum farmiða fyrir þennan ákveðna aldurshóp hækkar úr 80 krónum upp í 350.

Sigurður Einarsson, framkvæmdastjóri Félags eldri borgara í Reykjavík, er að vonum ekki sáttur við þær hugmyndir. „Mér finnst alveg út í hött að breyta prinsippatriði um hvenær fólk öðlast þessi réttindi. Flestir fara á ellilífeyri 67 ára, sem þýðir yfirleitt töluverða skerðingu á tekjum. Þess vegna eru þessir afslættir komnir til.“

Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó bs. sagði í samtali við Fréttablaðið að sveitarfélögin sem eiga félagið hafi tekið þessa ákvörðun með því að hætta að niður­greiða fargjöld eldri borgara.

Björk Vilhelmsdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar, segir að ákveðið hafi verið að hækka viðmiðunaraldur í hagræðingarskyni.

„Þegar við vorum að skoða möguleika til sparnaðar ákváðum við að óska eftir því að aldursviðmið yrðu hækkuð, því að það er ekki hægt að tala um fólk á aldrinum 67 til 70 ára sem aldrað fólk. Þannig þótti okkur upplagt að greiða niður strætisvagnafargjöld frá 70 ára aldri.“

Björk segir ekki um lögbundna þjónustu að ræða og ekki sé vitað hversu miklir fjármunir sparist við þessa ráðstöfun. „Við rennum alveg blint í sjóinn, en við vonumst til að geta sparað fimm milljónir á ári með þessu.“

Hún bætir því við að langt sé síðan þessi aldursviðmið voru sett og þó að þau eigi við á einum stað eigi þau ekki við alls staðar.

Þórhallur Gunnlaugsson, fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði, mótmælti niðurskurðinum á sínum tíma og segir að margt sé athugavert við meðferð málsins.

„Þetta er rætt sem hluti af sparnaði eða hagræðingu, en það kemur ekki einu sinni fram tillaga um þetta mál. Það er margt inni í þessari fjárhagsáætlun sem fólk veit ekki af. Ég á von á því að þegar fólk áttar sig á því hvað komi ofan á aðrar skerðingar muni heyrast hljóð úr horni.“

thorgils@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×