Skoðun

Guðmundur Magnússon: Er ekkert að marka ráðherra?

Þegar ráðist var á öryrkja og aldraða um mitt ár í fyrra fullyrti félags- og tryggingamálaráðherra að „…það væri betra að fá skellinn strax heldur en smátt og smátt". Það er ekki liðið árið þegar sami ráðherra kemur í fjölmiðla og lýsir því yfir að nú standi til að draga enn frekar úr velferðarkerfinu: "…að spara þar um 6% og fækka störfum" sem að sjálfsöðu þýðir minni þjónusta við einmitt þá er verst eru settir, þá sem erfiðast eiga með breytingar, sem eru viðkvæmastir í þjónustu o.s.frv.!

Árni Páll Árnason. Það er ekki nóg að tala fjálglega á fundum og lofa bættri þjónustu, tryggja öllum mannréttindi og heita því að allir fái að sitja við sama borð, hvað þjónustu varðar. Nú er, svo notaður sé orðaforði íþróttafréttamanna: rétt að þú takir þér tak og gyrðir í brók, látir hendur standa fram úr ermum og raunverulega VERJIR VELFERÐARKERFIÐ!!! Eins og þessi stjórn lofaði og hefur marg oft stagast á að hún vilji gera.

Um síðustu helgi var haldið málþing í þjóðfundarstíl um fátækt á íslandi að frumkvæði European Anti Poverty Network (EAPN) og félags- og tryggingamálaráðuneytisins. Um sama leyti kemur út skýrsla Rauða kross Íslands, „Hvar þrengir að?", en þar kennir ýmissa grasa. Þeir hópar sem verst standa eru: atvinnuleitendur með litla menntun, barnafjölskyldur og einstæðir foreldrar með lágar tekjur, innflytjendur sem tala litla íslensku, öryrkjar sem eru með börn á framfæri og börn og unglingar sem skortir tækifæri, t.d. vegna fátæktar, bakgrunns og/eða stöðu forsjáraðila.

Lífeyrisþegar sem aldrei hafa haft mikið hafa verið skertir markvisst síðan janúar 2009 bæði í almannatryggingakerfinu sem og hjá lífeyrissjóðunum sem hafa gengið hvað harðast að láglaunafólki sem vegna veikinda eða fötlunar á rétt á greiðslum úr lífeyrissjóðum sem það hefur greitt í allan sinn vinnutíma. En með „hókus pókus" reglum hafa lífeyrissjóðirnir komist upp með að láta almannatryggingakerfið greiða sjóðunum milljarð á ári sem niðurgreiðsla, án þess að bótaþegar fái það í sinn vasa.

Nei, nú er komið nóg! Fyrir rúmu ári var svo kölluð búsáhaldabylting, en nú er komið að hækju- og hjólastólabyltingunni:

„Öryrkjar allra landa sameinist." Það er ófært að ríkisstjórn sem kennir sig við velferð sjái engin önnur úrræði en ráðast á þá er erfiðast hafa það fyrir, hvort sem þeir kallast öryrkjar, atvinnuleitendur eða láglaunafólk.






Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×