Innlent

Knappur stuðningur við ríkisstjórn - Þráinn má ekki forfallast

Þráinn Bertelsson.
Þráinn Bertelsson.

Ríkisstjórnin virðist ekki geta treyst á atkvæði allra stjórnarliða í stórum málum. Þingstyrkurinn gæti enn dvínað því varaþingmaður Þráins Bertelssonar telur sig til þinghóps Hreyfingarinnar. Þráinn segist því ekki mega forfallast.

Hver er þingstyrkur ríkisstjórnarinnar?

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, varaþingmaður Þráins Bertelssonar, þingmanns Vinstri grænna, er þátttakandi í starfi þinghóps Hreyfingarinnar og segist mundu tilheyra þingliði flokksins ef hún væri kölluð inn á þing í forföllum Þráins. Þingstyrkur ríkisstjórnarinnar er því viðkvæmari en fjöldi þingmanna bendir til.Töluvert hefur verið gert úr hjásetu þriggja þingmanna Vinstri grænna við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins í síðustu viku og því jafnvel verið haldið fram í kjölfarið að ríkisstjórnin hafi einungis stuðning 32 þingmanna og þar með meirihluta sem stendur og fellur með einum þingmanni. Þremenningarnir hafa þó allir sagst styðja ríkisstjórnina.

Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálafræðiprófessor segir það alvarleg tíðindi fyrir ríkisstjórnina að umræddir þingmenn hafi ekki greitt atkvæði með fjárlögunum. „Stuðningurinn við ríkisstjórnina er greinilega mjög knappur. Á endanum er þetta nú samt sem áður spurning um hvort þeir eru tilbúnir að verja stjórnina vantrausti."

Þrátt fyrir tregðu þremenninganna er Ólafur ekki svartsýnn fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. „Það hefur verið spáð illa fyrir stjórninni lengi en hún lifað allt af og ég sé engin merki þess að hún sé endilega að fara að geispa golunni. Það ber líka að horfa á það að þrátt fyrir allt hefur stjórnin komið ýmsu í gegn. Hún hefur komið fjárlögunum í gegn og á endanum er ekki spurt að því með hve mörgum atkvæðum það var gert. Ríkisstjórnin virðist líka vera komin á rólegri sjó varðandi skuldamál heimilanna og sömuleiðis með aðgerðum sínum fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Helsta blikan sem er á lofti er náttúrlega Icesave-málið en það virðast vera meiri líkur en minni á að það geti gengið með sæmilega friðsömum hætti í gegn," segir Ólafur.

Ólafur telur enn fremur ekki miklar líkur á kosningum á næstunni. "Ég held að það sé ekki mikill áhugi á kosningum. Ef þessi ríkisstjórn fellur finnst mér líklegra að önnur stjórn verði mynduð án kosninga en þetta eru auðvitað bara vangaveltur."







Þráinn segist ekki mega forfallast

Varaþingmaður Þráins Bertelssonar, Katrín Snæhólm Baldursdóttir, er þátttakandi í þinghópi Hreyfingarinnar og styður ekki ríkisstjórnina. Hún segist ekki hafa rætt við Þráin síðan hann gekk í Vinstri græna og er óánægð með það hve lítið hefur breyst hjá núverandi ríkisstjórn.

Þráinn segir ástæðulaust að hafa áhyggjur af því að hann forfallist af þingi. "Það leiðir af þessu að ég má ekki forfallast. Mér finnst Hreyfingin ekki gervilegur hópur og af hverju ætti ég þá að fjölga í honum?" segir Þráinn og bætir við að hann muni forðast það í lengstu lög að taka sér frí. "Ég er sem betur fer heilsugóður og bjargast alveg ágætlega án varamanns."

Þráinn segist vonsvikinn með ósamstöðuna sem virðist ríkja meðal vinstrimanna á þingi og segist styðja ríkisstjórnina af heilum hug. „Mér þóttu það mjög söguleg tíðindi að hér eftir hrunið skyldi vera mynduð vinstristjórn, að þjóðin skyldi reiða sig á vinstriflokkana til að reisa landið úr rústunum. Ég var þó að vona að það væri meiri samstaða meðal vinstrimanna en þessi skortur á samstöðu hjá vinstrimönnum er ekki ný tíðindi."

Aðspurður um hve djúpstæður ágreiningurinn er í þingflokki Vinstri grænna segist Þráinn ekki viss um að sömu ástæður liggi til grundvallar hjá þeim þremur þingmönnum sem sátu hjá við afgreiðslu fjárlaga. „Mér sýnist að einn í hópnum eigi bara frekar erfitt með samstarf yfirleitt við aðra. Hjá öðrum sýnist mér þetta snúast um andstöðu við Evrópusambandið sem er komin langt út fyrir það sem skynsamlegt getur talist," segir Þráinn en bætir því við að hann hafi ekkert nema gott um þetta fólk að segja nema einn hlut. "Mér finnst það fyrir neðan allar hellur að þurfa að sitja undir dylgjum af hálfu fólks sem segist hafa lausnir á öllum málum; það þurfi hvergi að skera niður, það sé hægt að skapa öllum vinnu og svo framvegis, ef bara samhentur meirihluti í Vinstri grænum væri ekki að þjóna einhverri ónáttúru sinni með því sér til skemmtunar að ráðast á velferðarkerfið. Þetta er ekki satt, þetta er ekki sanngjarnt og það er bara ljótt að segja þetta."

magnusl

@frettabladid.is










Fleiri fréttir

Sjá meira


×