Fótbolti

Þrenna frá Higuain í stórsigri Argentínu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Higuain fagnar einu marka sinna í dag.
Higuain fagnar einu marka sinna í dag. Nordic Photos/AFP
Drengirnir hans Diego Maradona í argentínska landsliðinu unnu sinn annan leik í röð er liðið mætti Suður-Kóreu í dag. Argentína vann leikinn, 4-1, og er svo gott sem komið áfram í sextán liða úrslit.

Leikurinn var bráðskemmtilegur og opinn. Líklega skemmtilegasti leikur keppninnar það sem af er. Fyrsta þrenna mótsins leit dagsins ljós í leiknum.

Fyrsta mark leiksins kom á 16. mínútu en það var slysalegt sjálfsmark hjá Kóreu. Á 33. mínútu kom Gonzalo Higuain liði Argentínu í 2-0. Flest benti til þess að Argentína kæmist í 3-0 en Kóreumenn áttu góða sókn undir lok fyrri hálfleiks og náðu að skora. Lee skoraði markið. 2-1 í leikhléi og leikurinn allt í einu galopinn.

Síðari hálfleikur var bráðfjörugur, bæði lið að skapa sér færi en Argentína náði að skora. Higuain skoraði af metersfæri er hann tók frákast eftir skot Messi. Higuain var reyndar rangstæður en markið stóð.

Tíu mínútum fyrir leikslok fullkomnaði Higuain þrennuna eftir stórbrotna sókn Argentínumanna. Hún endaði með því að Higuain skallaði boltann smekklega í netið.

4-1 fyrir Argentínu sem sýndi sannkallaði meistaratakta í þessum leik.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×