Innlent

Niðurstaða í Magma málinu í næstu viku

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Katrín segir þingflokkana ekki stilla hvor öðrum upp við vegg.
Katrín segir þingflokkana ekki stilla hvor öðrum upp við vegg.
Katrín Júlíusdóttir aftekur með öllu að þingflokkur VG hafi komið þeirri skýlausu kröfu á framfæri við Samfylkinguna að fundin yrði leið til að rifta kaupum kanadíska orkufyrirtækisins Magma Energy á HS Orku.

Fimm ráðherrar hittust í gær til þess að fara yfir stöðu málsins. „Við erum að vinna málið í sameiningu og það er ekki þannig að einn þingflokkurinn sé að stilla sér upp gegn hinum heldur erum við samstíga í því hvernig við ætlum að vinna þetta og við erum að fara í gegnum það núna," segir Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra.

Katrín segir að forsætisráðherra, fjármálaráðherra, iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra hafi hist reglulega síðan í fyrravetur og fundað um auðlinda-, orku- og atvinnumál. Í gær hafi svo bæst við efnahags- og viðskiptaráðherra vegna Magma málsins. „Við erum að vinna þetta og það mun einhver niðurstaða úr þeirri vinnu líta dagsins ljós í næstu viku. Það hefur verið máluð upp mynd af einhverri ósamstöðu um málið en það er ekki djúp gjá," segir Katrín.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×