Körfubolti

Er Heather Ezell að senda valnefndinni skilaboð?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Heather Ezell hefur verið mikill happafengur fyrir Haukaliðið.
Heather Ezell hefur verið mikill happafengur fyrir Haukaliðið. Mynd/Valli

Heather Ezell, bandaríski leikstjórnandinn hjá Haukum, hefur átt frábært tímabil með liðinu en var engu að síður ekki kosin besti leikmaður fyrri hlutans í Iceland Express deild kvenna. Miðað við frammistöðu hennar í fyrstu tveimur leikjunum á nýju ári er eins og hún sé að senda valnefnd KKÍ smá skilaboð.

Heather Ezell hefur verið með fjórfalda og þrefalda tvennu í þessum tveimur leikjum sem Haukaliðið hefur unnið mjög örugglega með samtals 49 stigum, unnu Val 71-51 á útivelli og Njarðvík 94-65 á heimavelli.

Ezell er með 32,5 stig, 12,5 fráköst, 12,0 stoðsendingar og 6,0 stolna bolta að meðaltali í þessum tveimur leikjum.

Ezell hefur hitt úr 22 af 40 skotum sínum þar af 12 af 20 skotum sínum fyrir utan þriggja stiga línuna. Hún hefur jafnframt aðeins tapað samtals tveimur boltum í þessum tveimur leikjum sem gerir 12 stoðsendingar á hvern tapaðan bolta.

Í 20 stiga sigrinum á Val var Ezell með fjórfalda tvennu en hún skoraði þá 25 stig, tók 15 fráköst, gaf 11 stoðsendingar og stal 10 boltum. Hún fékk 47 í framlagi fyrir leikinn.

Í 29 stiga sigrinum á Njarðvík í gær var Ezell með 40 stig, 13 stoðsendingar og 10 fráköst en hún hitti þá úr 8 af 10 þriggja stiga skotum sínum. Hún fékk 58 í framlagi fyrir leikinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×