Fótbolti

Klinsmann spáir þvi að Spánverjar verði heimsmeistarar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jurgen Klinsmann í sjónvarpsþætti um HM ásamt Pele.
Jurgen Klinsmann í sjónvarpsþætti um HM ásamt Pele. MyndAP
Jurgen Klinsmann, fyrrum leikmaður og þjálfari þýska landsliðsins, er á því að Evrópumeistarar Spánverja verði einnig heimsmeistarar en HM í Suður-Afríku hefst eftir aðeins níu daga.

„Ef þeir koma í sama formi og þeir voru í á Evrópumótinu fyrir tveimur árum þá verður afar erfitt að vinna þá," sagði Klinsmann.

Þýska landsliðið varð í þriðja sæti undir hans stjórn á HM fyrir fjórum árum. Þá unnu Ítalir eftir að hafa unnið Þjóðverja í framlengingu í undanúrslitunum og Frakka í vítakeppni í úrslitaleiknum.

„Ég held að þeir séu ekki eins sterkir núna og þeir voru þá," sagði Klinsmann um ríkjandi heimsmeistara Ítala.

Klinsmann er á því að þýska liðið eigi möguleika á því að komast aftur í undanúrslitin en að það verði erfitt fyrir liðið að leika án fyrirliðans Michael Ballack.

„Þetta verður mjög erfitt fyrir þá án leiðtoga síns. Þýskaland er alltaf ein af þessum sex til átta þjóðum sem er alltaf spáð góðu gengi en væntingarnar eru alltaf mestar heima fyrir. Það er búist við því að liðið komist í undanúrslitin," sagði Klinsmann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×