Íslenski boltinn

Afleitt Evrópusumar íslenskra liða - átta töp í tíu Evrópuleikjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Baldur Sigurðsson og félagar í KR voru eina íslenska liðið sem tapaði ekki öllum sínum leikjum.
Baldur Sigurðsson og félagar í KR voru eina íslenska liðið sem tapaði ekki öllum sínum leikjum. Mynd/Daníel
Íslensku karlaliðin í Evrópukeppnunum félagsliða luku keppni í gær þegar Breiðablik og KR féllu úr leik í Evrópudeildinni. Kvöldið áður höfðu Íslandsmeistarar FH-inga fallið úr leik í forkeppni Meistaradeildarinnar.

Árangur íslensku karlaliðinna var allt annað en glæsilegur í Evrópukeppninni í ár því aðeins einn sigur vannst í tíu leikjum og átta af leikjunum töpuðust. Markatalan var 9-22 íslensku liðunum í óhag.

KR var eina liðið sem náði eitthvað út úr sínum leikjum og jafnfram eina liðið sem komst áfram í ár. KR vann 3-0 sigur á norður-írska félaginu Glentoran í 1. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar og gerði síðan 2-2 jafntefli í seinni leiknum í Belfast.

Allir aðrir leikir íslensku liðanna töpuðust og KR-ingar skorðu 7 af 9 mörkum íslensku liðanna í sínum fjórum leikjum. Hin þrjú liðin; FH, Breiðablik og Fylkir, skoruðu aðeins tvö mörk í sex leikjum sínum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×