Fótbolti

Grikkir skelltu Nígeríu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Grikkir fagna í dag.
Grikkir fagna í dag.
Grikkland vann gríðarlega mikilvægan sigur á Nígeríu, 2-1, í skrautlegum leik liðanna í B-riðli HM 2010. Þetta var fyrsti sigur Grikkja í lokakeppni HM frá upphafi. Með sigrinum komst Grikkland upp að hlið Suður-Kóreu með þrjú stig en Argentína er á toppnum með sex.

Leikurinn var æði skrautlegur og Kalu Uche kom Nígeríu yfir á 16. mínútu. Hann gaf þá sendingu í teiginn úr aukaspyrnu, enginn snerti boltann en markvörðurinn veðjaði á snertingu, tapaði því veðmáli þar sem boltinn rann í fjærhornið.

Á 33. mínútu varð síðan vendipunktur leiksins. Nígeríumaðurinn Sani Kaita lét þá skapið hlaupa með sig í gönur, sparkaði til eins leikmanns Grikklands og var réttilega vísað af velli.

Grikkir þökkuðu pent fyrir sig með því að jafna leikinn á 44. mínútu. Það gerði Dimitrios Salpingidis.

Síðari hálfleikur var líflegur. Grikkir sóttu en Nígeríumenn fengu sín færi úr hröðum upphlaupum.

Eina mark síðari hálfleiks skoraði síðan Vasilios Torosidis á 71. mínútu. Markvörður Nígeríu hélt ekki skoti sem kom á markið og Torosidis nýtti sér það.

Sterkur sigur hjá Grikkjum sem þurfa þó hugsanlega að gera eitthvað gegn Argentínu í lokaumferðinni til þess að komast áfram.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×