Handbolti

Guðlaugur: Tæpt en góður sigur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðlaugur Arnarsson, leikmaður Akureyrar, segir að liðið hafi oft spilað betur en gegn Aftureldingu í kvöld. Akureyri vann nauman sigur, 25-24.

„Þetta var tæpt en mjög góður sigur,“ sagði Guðlaugur. „Ég er rosalega ánægður með sigurinn. Við bjuggumst við því að mæta sterku liði Aftureldingar í kvöld enda erfiðir heim að sækja. Þeir komu okkur því ekki á óvart, við vitum að þeir eru með hörkulið.“

„Þeir spiluðu mjög góða vörn í þesum leik og það vantaði ákveðinn takt í okkar lið. Við vorum ekki jafn beittir og við höfum áður verið.“

„Það er þó gott að vinna svona leiki líka og það sýnir karakterinn sem býr í okkar liði. Við gefumst ekki upp þó svo að við lentum fjórum mörkum undir í seinni hálfleik. Við héldum áfram og kláruðum þetta.“

Akureyri er með fullt hús stiga en Guðlaugur segir að menn séu ekki farnir að bíða eftir fyrsta tapinu.

„Alls ekki. Við horfum bara á hvern leik fyrir sig og njótum þess á meðan er að vera ósigraðir á toppnum. En þetta var ekki okkar besti leikur í kvöld þó svo að við höfum átt rispur inn á milli. En ég tek ekkert af Mosfellingum - þeir voru að spila mjög vel í kvöld.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×