Erlent

Frelsisher Kosovo seldi líffæri

Skurðlæknirinn Lutfi Dervishi (t.h.) er talinn vera höfuðpaur alþjóðlegs líffærasöluhrings. Hann kemur hér út úr dómshúsi í Pristina á þriðjudag ásamt Arban syni sínum.
Skurðlæknirinn Lutfi Dervishi (t.h.) er talinn vera höfuðpaur alþjóðlegs líffærasöluhrings. Hann kemur hér út úr dómshúsi í Pristina á þriðjudag ásamt Arban syni sínum.
Frelsisher Kosovo myrti fjölda almennra borgara sem teknir höfðu verið til fanga og seldi úr þeim líffærin eftir að stríðinu í Kosovo lauk árið 1999. Þetta kemur fram í rannsóknarskýrslu svissneska þingmannsins Dick Marty, sem er kunnur fyrir rannsókn Evrópuráðsins á fangaflugi bandarísku leyniþjónustunnar CIA.

Glæpirnir voru samkvæmt skýrslunni framdir í Fushi-Kruje í Norður-Albaníu, nálægt helsta alþjóðaflugvelli landsins. Fórnarlömbin, bæði andstæðingar Frelsishers Kosovo og Serbar, voru skotin og skurðlæknar námu síðan úr þeim líffærin. Í skýrslunni er Drenica-hópurinn svokallaði bendlaður við málið, en leiðtogi hans er Hashim Thaci, núverandi forsætisráðherra Kosovo og fyrrverandi foringi í Frelsishernum. Ríkisstjórn Kosovo kallar skýrsluna rógburð en hún verður til umfjöllunar á þingi Evrópuráðsins í janúar næstkomandi.

Á þriðjudag var tekið fyrir tengt dómsmál í Pristina í Kosovo þar sem sjö manns eru sakaðir um aðild að umsvifamiklum alþjóðlegum líffærasöluhring. Saksóknari sagði þá að sjúklingar frá Kanada, Þýskalandi, Póllandi og Ísrael hefðu greitt á bilinu 80-100 þúsund evrur hver fyrir líffæri úr fátæklingum frá Austur-Evrópu og Mið-Asíu.- mt



Fleiri fréttir

Sjá meira


×